Fjársjóður framtíðar – þriðja þáttaröðin á RÚV í kvöld

Við erum virkilega stolt hjá KAM film að hafa tekið þátt í þessu verkefni sem við framleiddum með Háskóla Íslands fyrir RÚV. Um er að ræða 5 þætti þar sem við kynnumst því sem fjöldi vísindamanna við Háskóla Íslands eru að rannsaka. Það kemur virkilega á óvart fyrir okkur sem stöndum fyrir utan háskólasamfélagið þegar við uppgötvum hversu fjölbreytt, áhugavert og faglegt starf íslenskra fræðimanna er. Við þvældumst um allt land og ræddum við um 80 vísindamenn með það fyrir augum að heyra frá þeim á mannamáli um hvað rannsóknirnar snerust. Þar komum við ekki að tómum kofanum.

Fjársjóður framtíðar er hugarfóstur Jóns Arnars Guðbjartssonar en hann og kollegi hans, Björn Gíslason, hafa haldið vel á spöðunum og nú birtist 3. þáttaröðin á RÚV í kvöld. Konráð Gylfason hefur unnið þetta með þeim frá fyrstu þáttunum en þessi þriðja þáttaröð er í fyrsta skipti sem KAM film kemur að framleiðslunni. Hinar tvær þáttaraðirnar voru framleiddar af miklum myndarskap af Kukl ehf. og setti myndataka Bjarna Felix Bjarnasonar, kvikmyndatökumanns, staðalinn sem halda varð uppi í framhaldinu.

Konráð Gylfason var í lykilhlutverki við gerð þáttanna en þeir væru bara svipur hjá sjón ef ekki hefði notið ótrúlegra neðansjávarmynda frá Erlendi Bogasyni, ótrúlegra „drone“ mynda frá OZZO photo, einstakra hikmynda (timelaps) frá Þorvarði Árnasyni að ógleymdum Stefáni Drengssyni sem kryddaði þættina með sínu góða auga fyrir lífinu í Háskólanum. Þá má ekki gleyma frábæru myndefni sem til var í sarpinum frá Kukl ehf og Bjarna Fel en vísindamennirnir sjálfir eiga líka stóran hlut í þáttunum með myndefni sem þeir hafa tekið upp meðan á rannsóknum stóð.

Vönduð hljóðvinnsla meistarans hjá hljóð.is, Birgis Tryggvasonar setur síðan punktinn yfir i-ið og það er einlæg von okkar að þættirnir nái að furða, fræða og skemmta landanum í sjónvarpi okkar allra.

Fyrir tækniáhugafólk þá er rétt að geta þess að þættirnir voru teknir upp í UHD (4K-TV) með myndavél frá Black Magic Design og allar hikmyndir og flest öll „drone“ skotin voru líka tekin upp í UHD (4K-TV). Þættirnir voru klipptir í Premiere Pro CC og fóru hringinn (round-trip) í Davinci Resolve í litvinnslu (grade) áður en samsetning á master fór fram í Premiere Pro. Hljóðblöndun átti sér stað í Pro-Tools hjá hljóð.is.

Hérna gefur að sjá lengri útgáfu af stiklu fyrir þættina.

Hér er að finna stiklu fyrir fyrsta þáttinn sem sýndur er í kvöld.